Hilmar G. Jónsson
Hilmar Guðlaugur Jónsson fæddist í Fögruhlíð í Jökulsárhlíð 12. maí 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 12. maí 2013.Hilmar kynntist almennum sveitastörfum. Hann flutti til Reykjavíkur til að fara í skóla 1945. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík. Hann vann um tíma hjá Sigurði Blöndal, skógarverði í Hallormsstaðarskógi, sá tími var honum dýrmætur sem og vinátta þeirra Sigurðar. Um tvítugt fór Hilmar til Parísar að læra frönsku. Eftir heimkomuna hóf hann störf hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur. Þegar Bæjar- og héraðsbókasfn Keflavíkur var stofnað, árið 1958, fékk Hilmar stöðu yfirbókarvarðar og gegndi því starfi til 1992. Hilmar starfaði mikið að félagsmálum, m.a. þjálfaði hann stúlknaflokk í handbolta og sá um barnastúkuna Nýársstjörnuna og stúkuna Vík í Keflavík í u.þ.b. 30 ár. Hilmar sat í stjórn Félags bókavarða og í stjórn Stórstúku Íslands m.a. sem stórtemplar í mörg ár. Hann endurreisti ásamt fleirum Leikfélag Keflavíkur, var í stjórn Félags eldri borgara á Suðurnesjum, Alþýðuflokknum og síðar Samfylkingunni. Auk þess sat hann í nefndum á vegum bæjarins. Hilmar skrifaði skáldsögur, minningabækur, leikrit, ljóð og mikið af blaðagreinum. Leikfélag Keflavíkur setti upp leikritið Útkall í Klúbbinn eftir Hilmar sem Gunnar Eyjólfsson leikstýrði. Hann var bæjarlistamaður Keflavíkur 1994.